Nýtt húsnæði - breytt nafn

flatahraun_800Nýtt húsnæði Navis er hér á Flatahrauni 5A í Hafnarfirði.Á sama tíma og Navis Fengur flytur úr Trönuhrauni í Flatahraun 5 í Hafnarfirði styttist nafn félagsins og verður það sama og í upphafi eða Navis. Í dag þegar liðin eru þrjú ár síðan verkfræðistofurnar Navis og Fengur sameinuðust telja menn að vitneskja um sameininguna sé orðin vel þekkt meðal viðskiptavina og því tímabært að stytta nafnið aftur í Navis.

Um miðjan maí var starfsemin fyrirtækisins flutt í rúmgott húsnæði við Flatahraun 5A, beint á móti Iðnskólanum í Hafnarfirði. Vegna sívaxandi verkefna var orðið þröngt um starfsemi Navis í Trönuhrauni og segir Hjörtur Emilsson framkvæmdastjóri að í raun hafi þrengslin verið farin að hamla eðlilegum vexti fyrirtækisins. Stærstu verkefni Navis að undanförnu hafa verið fyrir erlenda aðila en einnig hefur verið talsvert um ýmis smærri verkefna hér heima.

Með flutningi í nýtt og rúmbetra húsnæði verður aftur hægt að bæta við starfsfólki eftir því sem þörf krefur, auk þess sem vinnuaðstaða starfsmanna sem fyrir eru batnar til muna. Flatahraun 5A í Hafnarfirði er þriðji staðurinn sem hýsir skrifstofur Navis á tiltölulega stuttum ferli sem hófst í Kópavogi árið 2003. Með vaxandi umsvifum hefur jafnt og þétt þurft að auka við húsnæðið en að sögn Hjartar telja menn sig nú vera komna með aðstöðu sem muni duga næstu árin. Þrátt fyrir flutninginn eru síma- og faxnúmer Navis óbreytt og sama er að segja um netföng.