Fréttir 2009

Loftgæði um borð í íslenskum skipum rannsökuð

Úr vélarúmi um borð í íslensku skipiÚr vélarúmi um borð í íslensku skipiMeðal verkefna sem Navis vinnur að fyrir Siglingastofnun Íslands er rannsókn á loftgæðum um borð í íslenskum skipum. Þessi rannsókn hefur staðið um nokkurt skeið en kveikjan að því að ráðist var í hana eru niðurstöður kannanna sem gerðar hafa verið undanfarin ár á heilsufari sjómanna og vélstjóra sérstaklega, bæði hér á landi og í öðrum nálægum löndum. Þessar kannanir hafa meðal annars bent til þess að þeim sem vinna í vélarúmi og starfa við vélstjórn sé hættara við að fá krabbameini en öðrum.

Vélstjórafélag Íslands óskaði eftir því á sínum tíma við Siglingastofnun að loftgæði í vélarúmum íslenskra skipa yrðu rannsökuð og var orðið við þeirri beiðni. Undanfarin misseri hefur verið unnið að undirbúningi og framkvæmd þessa máls og hillir nú undir lokin, en stefnt er að því að niðurstöður rannsókna Navis liggi fyrir í lok ársins.

Verkefnið hefur ekki einskorðast við rannsókn á loftgæði í vélarúmi, heldur hafa almenn loftgæði um borð í íslenskum fiskiskipum verið til skoðunar. Gera má ráð fyrir að svipað sé ástatt um loftgæði í öðrum skipum af svipaðri stærð og gerð þannig að væntanlega verður hægt að yfirfæra niðurstöður rannsóknarinnar á aðra hluta íslenska skipaflotans. Mælingar um borð á efnum eins og CO, CO2, H2S og NOx hafa verið veigamikil þáttur í rannsókninni auk greininga á aðskotaögnum í andrúmslofti eins og olíuþoku/olíugufu.

Þess er vænst að á grundvelli rannsóknarinnar verið verði hægt að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana sem bæta almenn loftgæði um borð í íslenskum skipum og stuðla að því að gera vinnuumhverfi sjómanna og þá sérstaklega vélstjóra sem starfa vélarúmum skipa heilsusamlegra.