Giftusamlegri björgun Wilson Muuga lokið

Dráttarbáturinn Magni byrjar að toga í Wilson Muuga Dráttarbáturinn Magni byrjar að toga í Wilson Muuga „Auðvitað er það mikill léttir að það skyldi takast jafn vel að ná skipinu af strandstað og raun ber vitni en það sem skipti sköpum er að við vorum búnir að undirbúa framkvæmdina mjög vel og höfðum reynt að sjá fyrir allt sem gæti farið úrskeiðis,“ segir Hjörtur Emilsson framkvæmdastjóri Navis-Fengs sem var einn þeirra sem skipulagði björgun Wilson Muuga af strandstað við Sandgerði.

Hjörtur segir að unnið hafi verið eftir áætlun um björgun sem hann gerði strax 19. janúar. "Að frumkvæði útgerðar skipsins var ég hífður með þyrlu um borð í Wilson Muuga strax í byrjun árs til að skoða aðstæður. Eftir að hafa skoðað skemmdirnar taldi ég strax að það ætti að vera hægt að þétta skipið nógu mikið til að fleyta því af strandstaðnum. Á þessum tíma voru hins vegar flestir á því að skipið myndi ekki fara úr fjörunni öðru vísi en í pörtum. Það var síðan í framhaldinu að við útfærðum betur í samstarfi við útgerðina þessa björgunarhugmynd sem nú er orðinn að veruleika" segir Hjörtur.

Hjörtur segir að það hafi allan tímann verið mjög tæpt að það tækist að þétta skipið og ljúka undirbúningi í tæka tíð fyrir stórstraumsflóðið núna í apríl og því hafi opinberlega verið miðað við að ná skipinu af strandstað um miðjan maí.  Með mikilli vinnu hafi þetta hins vegar tekist.  Hann segir að á viðgerðartímanum hafi menn ýmist verið að dæla sjó úr skipinu til að komast að því að þétta það á fjörunni eða verið að að dæla sjó um borð í skipið til að þyngja það svo það væri stöðugt og þyldi betur sjávarganginn á flóðinu.

i_hreinsunStarfsmaður Köfunarþjónustu Árna Kópssonar skolar olíu af Guðmundi Ásgeirssyni, stjórnarformanni Nesskipa og Hirti Emilssyni, framkvæmdastjóra Navis Fengs eftir að þeir hafa unnið við olíuhreinsun í lestum skipsins.Óvænt babb kom í bátinn eftir að Wilson Muuga flaut upp á flóðinu í gær. Gert hafði verið ráð fyrir að dráttarbáturinn Þjótur myndi sigla með aðaldráttartaugina út í Magna sem síðan átti að draga skipið af strandstað. Þegar dráttartaugin flæktist í stýri Þjóts vandaðist málið því mjög óheppilegt var að hafa skipið á floti án þess að vera með dráttartaugina í lagi. Því var gripið til þess ráðs að fá þriðja dráttarbátinn, Leyni,  til að koma dráttartauginni út í Magna.  Þetta tókst en mátti varla tæpara standa því mikilvægt var að halda réttri stefnu á skipinu til að koma því framhjá skerjum sem þarna eru. Hjörtur viðurkennir að menn hafi verið farnir að hugleiða að sökkva Wilson Muuga aftur á strandstaðnum og gera aðra tilraun síðar, en til þess kom þó ekki.

Magni kom með Wilson Muuga til Hafnarfjarðar laust eftir klukkan 23 í gærkvöldi. Siglingin fyrir Garðsskaga gekk vel og er Wilson Muuga nú í suðurhöfninni skammt frá stóru flotkvínni sem þar er.  Hjörtur telur að þótt skipið sé talsvert skemmt sé það ekki svo illa farið að ekki sé hægt að gera við það. Því megi alveg reikna með að einhverjir vilji kaupa skipið og gera við það og koma því aftur í not.